Íþróttir og tómstundir

Íþróttir og tómstundir efla andann, styrkja líkamann og auka samkennd. Í félögum og klúbbum bæjarins er unnið frábært starf í keppni og leik. L-listinn vill byggja á nýrri íþróttastefnu Akureyrarbæjar sem gerir ráð fyrir að rekin verði færri, stærri og faglegri íþróttafélög í bænum. Fámennari greinar fá þannig faglega umgjörð og geta einbeitt sér að sjálfri íþróttastarfseminni. Byggðir verði upp 3-4 sterkir íþróttakjarnar í bænum.  Við viljum tengja íþrótta- og tómstundaiðkun yngri barna við frístund í skólum þannig að sem flest börn geti lokið vinnudegi sínum kl. 16. 

Markmið 

 • Að fjölga þátttakendum á öllum aldri í íþrótta- og tómstundastarfi.
 • Að tryggja jafnrétti sem leiðarstef í öllu íþrótta- og tómstundastarfi á Akureyri.
 • Að flétta fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf inn í vinnudag yngstu bekkja í grunnskóla.
 • Að tryggja öllum börnum aðgang að íþrótta- og tómstundastarfi án tillits til efnahags.
 • Að íþróttabærinn Akureyri standi undir nafni sem slíkur.

Leiðir

 • Byggja upp aðstöðu á svæðum KA og Þórs í samræmi við framtíðaráætlanir félaganna.
 • Kanna mögulega þátttöku einkaaðila í rekstri Hlíðarfjalls og halda áfram uppbyggingu á svæðinu.
 • Skipuleggja frístund grunnskólanna með tengingu við íþrótta- og tómstundastarf. Skapa samfellda og áhugaverða dagskrá þannig að börn í 1. til 4. bekk grunnskóla ljúki sínum vinnudegi kl. 16.
 • Viðhalda öflugri uppbyggingu á tómstundastarfi og hvetja til betri nýtingar á frístundarstyrknum.
 • Frístundastyrkur bæjarins hækki í 51 þúsund krónur fyrir lok kjörtímabilsins og verði fyrir börn upp í átján ára.
 • Sérstakur fjárstuðningur við börn til íþrótta- og tómstundastarfs ef fjölskylduaðstæður eru erfiðar.
 • Tökum upp formlegar viðræður við stjórnvöld um nýjan samning vegna áframhaldandi samstarfs um uppbyggingu aðstöðu til vetraríþrótta og reksturs Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á Akureyri
 • Móta stefnu fyrir tómstunda- og félagsstarf aldraðra.
 • Auka ber stuðning við jaðaríþróttir.
 • Setja færanlegt gólf í Bogann.