Stefnuskrá

Akureyrarbær er frábær staður til að búa á en þó má hvergi slaka á í að gera hann enn betri. Það þarf að halda vel á málunum til að byggja upp svæðisborg þar sem hlúð er jafnt að öllum hópum samfélagsins.

Til þess að ná árangri þarf Akureyrarbær að vaxa upp í hæfilega stærð svo hægt sé að bjóða þjónustu eins og hún gerist best. Með því að setja Akureyri í fyrsta sæti gerum við sveitarfélagið að eftirsóknarverðasta stað landsins að búa á  ,,Hér er best að búa".

Til að þetta takist þarf að huga að öllum þáttum sem hjálpa góðum bæ að verða enn betri. Á Akureyri spilar uppbygging, sjálfbærni og fjölskylduvænt umhverfi saman á einstakan hátt.

Lykiláherslur

  • Auka lóðaframboð svo hægt sé að byggja hér að minnsta kosti 350 nýjar íbúðir á ári í miklu samráði við íbúa bæjarins og tryggja fjölbreytt húsnæði fyrir alla. Stuðla að heildrænu skipulagi bæjarhluta, mannvænu og heilsusamlegu þéttbýli. 
  • Tryggja og leysa til frambúðar að öll 12 mánaða börn komist inn á leikskóla. Við viljum styðja við dagforeldra og koma til móts við foreldra með heimgreiðslum, þar til leikskólapláss býðst.
  • Koma á frístundavagni í samstarfi við skóla, íþróttafélög og aðrar tómstundir. 
  • Taka örugg „græn skref“ svo Akureyrarbær verði áfram í forystu þegar kemur að flokkun og endurvinnslu á úrgangi. Styðja með markvissum hætti við orkuskipti í samgöngum og auka framleiðslu á umhverfisvænu metani.
  • Koma á frístundastyrk fyrir 67 ára og eldri – fyrirkomulag sem hefur virkað vel til að ákveða hvert fjármagn fer sem stuðlar að heilbrigðara líferni verður nú sett af stað fyrir þennan aldurshóp líka.
  • Greina atvinnutækifæri og setja á fót starfsstöðvar fyrir störf án staðsetningar. Efla nýsköpun og frumkvöðlastarf í samstarfi við menntastofnanir, atvinnulíf, bæjarbúa og aðra hagsmunaaðila.
  • Klára fyrirhugaða uppbyggingu á íþróttasvæði KA og gera samning um uppbyggingu á Þórssvæðinu í tengslum við fjölnota íþrótthús og gervigrasvöll.
  • Styðja við með beinum hætti uppbyggingu á reglulegu millilandaflugi frá Akureyri allt árið um kring. Beint millilandaflug er hluti af lífsgæðum og mikilvægt fyrir samkeppnishæfni svæðisins, auk þess sem það eykur tekjur.
  • Draga úr svifryki með öllum tiltækum ráðum.
  • Efla menningu og listir, tengja betur inn í skólastarf og stuðla að enn betri nýtingu menningarhúsa bæjarins.
  • Byggja þjónustuhús í Hlíðarfjalli til að efla svæðið fyrir íþróttir og ferðamennsku, í samvinnu við ríki og einkaaðila.
  • Tryggja aðgengi almennings að Glerárlaug, leita leiða til að bæta útisvæði sundlaugarinnar og markaðsetja hana. Auk þess sem farið verði í staðarvalsgreiningu og kostnaðarmat fyrir nýja 50 metra innilaug á kjörtímabilinu.
  • Sporna gegn uppsöfnun á rusli og hvetja fyrirtæki og einstaklinga til að taka þátt í að flokka betur, fegra og hreinsa bæinn. Akureyri verði snyrtilegasti og fallegasti bær landsins.
  • Styðja betur við starfsfólk skóla meðal annars með því að auka fjölbreytileika þeirrar þjónustu sem er til staðar innan veggja skólanna og útskrifa skapandi, lífsglaða og sjálfsörugga nemendur.
  • Ástunda fagleg vinnubrögð og gagnsæi sem verði aðalsmerki stjórnsýslu Akureyrarbæjar. Tryggja áfram ábyrga fjármálastjórnun og sjálfbærni í rekstri.
  • Tryggja að fólki með fötlun og fjölskyldum þeirra standi til boða fjölbreytt búsetu og þjónustu úrræði, sem leiða til aukinna lífsgæða.
  • Markaðssetja Akureyri, Hrísey og Grímsey sem ákjósanlega staði til þess að búa á.
  • Að hafna hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki, s.s. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum.

L-listanum er treystandi fyrir því að leggja alla áherslu á Akureyri. X-L fyrir lífsgæði.

Framúrskarandi skólar

Börn eiga að fá bestu mögulegu menntun og aðbúnað sem völ er á innan leik- og grunnskóla. L – listinn ætlar að huga enn frekar að velferð barna með því að öllum sé tryggð sú þjónusta sem þörf er á til að bregðast við t.d. andlegri líðan eða námserfiðleikum. Við viljum efla skapandi greinar með það að markmiði að gera námið fjölbreyttara.

  • Tryggja og leysa til frambúðar að öll 12 mánaða börn komist inn á leikskóla 
  • Aukinn stuðningur við dagforeldra
  • Bjóða heimgreiðslur til foreldra/forráðamanna í stað dagvistunar
  • Farsældarlögin verði höfð til grundvallar þegar kemur að þjónustu við börn
  • Halda áfram að efla umgjörð sem laðar fagfólk til starfa í leik- og grunnskólum
  • Að efla ráðgjöf og stoðþjónustu og færa hana inn í leik- og grunnskólana í þeim tilgangi að styrkja skólastarf og bregðast fyrr við ef börn lenda í tilfinningalegum eða geðrænum vanda
  • Efla frístundastarf í grunnskólum og tengja það betur íþrótta- og tómstundastarfi með það að markmiði að ná samfellu í vinnudag barna
  • Leita leiða við að nútímavæða kennsluhætti enn frekar og efla skólastarfið með þarfir nemenda að leiðarljósi, meðal annars til að sporna við brottfalli
  • Að skólastarf komi betur til móts við þarfir allra barna með áhugasviðs- og persónumiðuðum verkefnum 
  • Efla enn frekar stuðning við nemendur af erlendum uppruna með fjölbreyttum kennsluháttum, fræðslu og einstaklingsmiðuðu námi
  • Að lögð verði áherslu á að standa vel að móttöku barna með íslensku sem annað tungumál
  • Gera skapandi námi hærra undir höfði með því að auka vægi verk- og listgreina í skólastarfinu
  • Lækka leikskólagjöld í skrefum
  • Halda skólaþing um stöðu og framtíðarsýn fyrir skólabæinn Akureyri 
  • Hvetja til enn frekara samstarfs milli leik- og grunnskóla, með það fyrir augum að flæði milli skólastiga verði aukið
  • Skoða möguleika á að koma á 5 ára börnum í grunnskóla þannig að pláss skapist fyrir 12 mánaða börn í leikskóla
  • Gera kröfu á að ríki sinni þjónustu við börn sem þurfa á stuðningi að halda í framhaldsskólum 
  • Leggja áherslu á að efla félagslega færni, samkennd og leiðtogafærni nemandans
  • Tryggja forvarnarfræðslu á öllum skólastigum 
  • Kynfræðsla í skólum verði aukin 
Velferð og vellíðan íbúa

Velferðarþjónusta er mikilvæg mælistika á gæði sveitarfélaga.  Á Akureyri hefur verið byggð upp einstök velferðarþjónusta, við viljum halda áfram og gera enn betur. Við viljum að allir, ungir sem aldnir, geti notið þess að búa á Akureyri. Við viljum tryggja úrræði sem henta öllum og að upplýsingar um þau séu aðgengilegar og auðskiljanlegar. Meðal annars verður unnið gagngert að því að sporna við einmanaleika og félagslegri einangrun einstaklinga. L-listinn vill fjölbreytt framboð á íbúðarhúsnæði og tryggja öllum íbúum öruggt húsaskjól. Við teljum að til þess að geta gert enn betur þurfi gott samtal  og samstarf við notendur þjónustunnar.

  • Tryggja öllum öruggt húsaskjól með áherslu á fjölbreytt búsetuúrræði
  • Við viljum koma á markvissri vinnu gegn hvers konar ofbeldi
  • Við viljum aðstoða fólk við að fóta sig á vinnumarkaði og losna undan fjárhagsaðstoð
  • Efla enn frekar þau úrræði sem eru til staðar til að grípa ungt fólk í vanda og leggja áherslu á að finna viðeigandi úrræði fyrir hvern og einn
  • Forvarnarstarf verði aukið og áhersla lögð á heilbrigðan lífsstíl
  • Skoða þörf á tæknilausnum til notkunar innan félagsþjónustunnar og kanna hvaða möguleikar og tækifæri felast í aukinni notkun á velferðartækni
  • Áhersla skal lögð á að auka öryggi fjölskyldna í húsnæðismálum með því að stuðla að fjölbreyttu framboði íbúðarhúsnæðis, hvort sem um er að ræða félagslegt leiguhúsnæði eða húsnæði á almennum markaði
  • Tryggja fólki með fötlun fjölbreytt búsetuúrræði og vinna á biðlistum
  • Leitað verði leiða til að koma á öflugum húsnæðisleigumarkaði
  • Eiga samræður við ríkisvaldið og stofnanir þess um að gerður verði heildstæður samningur um verkefni á sviði velferðar þar sem sanngjarnar greiðslur komi á móti
  • Efla þarf íþrótta- og tómstundastarf
  • Aukin áhersla verður á notendastýrða þjónustu fyrir fatlað fólk (NPA)
  • Fjölbreyttari leiðir í atvinnumálum
  • Leggja áherslu á aukið sjálfstæði fólks með fötlun og frelsi þeirra til að ferðast
  • Fólki með fötlun og fjölskyldum þeirra skal standa til boða fjölbreytt stuðningsúrræði sem leiða til aukinna lífsgæða
  • Að forvarnarstarf verði eflt enn frekar
  • Rjúfa félagslega einangrun með markvissum hætti
  • Römpum upp Akureyri
Virk efri ár

Mikilvægt er að huga vel að eldra fólkinu okkar. Virk efri ár eru ekki sjálfsögð en samfélagið getur hlúð að fólkinu og skapað umhverfi þar sem stuðlar að meiri gleði eftir starfslok.

  • Gæta að því að aldraðir njóti sömu möguleika á tómstundum og aðrir
  • Að koma á frístundastyrk fyrir eldra fólk
  • Akureyrarbær verði aldursvænt sveitarfélag, með það að markmiði að tekið sé tillit til eldra fólks í þjónustu, skipulagi og starfi sveitarfélagsins
  • Við viljum byggja þjónustu á virkni og þátttöku aldraðra
  • Nýta Öldungaráð Akureyrar betur til ráðgjafar um mál er varða eldri borgara
  • Höldum áfram að einfalda upplýsingagjöf og umsóknarferli
  • Samstarf hjúkrunar- og öldrunarheimilanna verði aukið enn frekar með það að markmiði að gera eldri borgurum kleift að búa lengur í heimahúsi
  • Þrýsta á ríkið um uppbyggingu fleiri hjúkrunarrýma

Í sátt við umhverfið

Akureyrarbær hefur getið sér gott orð í umhverfismálum og er þar í forystusæti.  Bærinn á stöðugt að sækja fram af metnaði í bæði umhverfis- og loftlagsmálum.  Við viljum halda áfram að vinna að hugmyndum um sjálfbæra þróun og innleiða metnaðarfulla umhverfis- og loftlagsstefnu sveitarfélagsins, þannig að íbúar geti lifað hér stoltir í sátt við umhverfi sitt.

  • Akureyri verði í fararbroddi við flokkun, meðferð og endurvinnslu úrgangs
  • Svifryk fari aldrei yfir skilgreind heilsuverndarmörk
  • Auka fræðslu fyrir íbúa og ferðamenn um flokkun
  • Hætta allri óþarfa saltnotkun á götum
  • Þrífa bæinn betur og draga þannig úr loftmengun
  • Fjölga hleðslustöðvum og gera átak í að fjölga möguleikum einstaklinga á að hlaða bíla nálægt heimilum sínum
  • Setja okkur metnaðarfull markmið um að auðvelda orkuskipti
  • Fara í beinar aðgerðir til að fegra og snyrta, hjá fyrirtækjum og einstaklingum
  • Allar bifreiðar og vinnuvélar í eigu Akureyrarbæjar verði knúnar innlendum vistvænum orkugjöfum
  • Vinna að orkuskiptum á skipum þegar þau liggja við bryggju á Akureyri, hvort sem það eru skemmtiferðaskip, fiskiskip eða hvalaskoðunarskip
  • Halda áfram að merkja sögufræga staði og hús
  • Akureyringar verða hvattir til að hugsa vel um eigin hús og lóðir, t.d. með því að veita umhverfisviðurkenningar
  • Dregið verði úr matarsóun með því að vera til fyrirmyndar sjálf
  • Vinna áfram samkvæmt samþykktu stígaskipulagi
  • Áfram verði unnið að því að útrýma óæskilegum gróðri í Hrísey
  • Að koma á frístundavagni strax í haust
  • Að taka örugg græn skref , Akureyrarbær í forystu
  • Innleiða nýja umhverfis- og loftlagsstefnu
  • Sporna gegn uppsöfnun á rusli og hvetja fyrirtæki og einstaklinga til að taka þátt í að flokka betur, fegra og hreinsa bæinn. Akureyri verði snyrtilegasti og fallegasti bær landsins
  • Vinnum að orkuskiptum í Grímsey

Öflugt atvinnulíf

Sveitarfélög þurfa að skapa hagkvæm skilyrði fyrir atvinnulífið og stuðla að stofnun og rekstri nýrra fyrirtækja sem og að styðja við eldri. Akureyrarbær á að vera reiðubúinn til að auka eigin fjárfestingar tengdar atvinnuuppbyggingu og styðja þannig við verkefni sem skila tekjum í framtíðinni. Vinna þarf að markvissri markaðssetningu bæjarins fyrir innlenda og erlenda fjárfestingu. L-listinn vill að nýsköpun verði öflug stoð í fjölbreyttu og kröftugu atvinnulífi. Munum að mörg stórfyrirtæki í heiminum byrjuðu í bílskúr. Fjölgum íbúum, sköpum ný atvinnutækifæri og tryggjum að í Eyjafirði verði blómleg byggð til framtíðar. 

  • Styðja við millilandaflug og gera Akureyri að áhugaverðum áfangastað allt árið um kring 
  • Fylgja á eftir og tryggja að uppbygging á flughlaði og flugstöð á Akureyrarflugvelli verði kláruð
  • Leita leiða varðandi jöfnunar flutningskostnaðar og styðja styttingu milli Akureyrar og Reykjavíkur
  • Auka samkeppnishæfi svæðisins og efla Akureyri á okkar forsendum
  • Verja opinber störf í bænum og herja á ríkið um flutning nýrra starfa 
  • Halda áfram og efla samstarfsvettvang Akureyrarbæjar og atvinnulífsins með reglulegum samtölum
  • Styðja uppbyggingu þjónustu- og iðnaðarsvæðis við Dysnes
  • Tryggja nægilega raforku til atvinnuuppbyggingar í samvinnu við Landsnet og með uppbyggingu smávirkjana og vindorku
  • Gera meira úr sérstöðu Grímseyjar og vinna náið með heimafólki að þróun fjölbreyttari atvinnustarfsemi
  • Kortleggja íþróttatengda ferðaþjónusta og grípa tækifæri henni tengdri
  • Drögum fram sérstöðu Hríseyjar og gerum Cittaslow hugmyndina að veruleika
  • Tilnefnum frumkvöðul ársins
  • Eflum og styðjum við umhverfi fyrir nýsköpun og frumkvöðla
  • Að hafnirnar verði áfram ein af stoðum ferðaþjónustu á svæðinu
  • Að hafnirnar séu hreinar og snyrtilegar
  • Að öryggismál á hafnarsvæðum séu ávallt eins og best verður á kosið
  • Bjóða upp á raforku fyrir skip
  • Fjölga leguplássum fyrir smábáta

Notalegur bær

Skipulag er forsenda uppbyggingar. Í skipulagi er tekin stefnan um hvers konar bær Akureyri eigi að vera. Gott skipulag auðveldar daglegt líf okkar allra. Við eigum að leggja metnað í skipulagsmálin og hafa þolimæði til þess að láta framtíðasýnina rætast. Greið leið í skóla og vinnu, gangandi, hjólandi eða akandi, stuttar vegalengdir spara tíma og létta lífið. Þéttari byggð leiðir af sér orkusparnað og minni mengunar. Góðar samgöngur við höfuðborgarsvæðið og við útlönd skipta miklu máli í nútímaþjóðfélagi.

  • Tryggja framboð á lóðum fyrir amk. 350 íbúðir á ári og stuðla að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í bænum eftir föngum
  • Stuðla að heildrænu skipulagi bæjarhluta, fallegu, mannvænu og heilsusamlegu þéttbýli 
  • Gera nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi og auka fjármagn í skipulagsmál þegar mikil uppbygging krefst þess
  • Gera fyrstu lóðirnar í Móahverfi byggingarhæfar sem fyrst
  • Byggja upp fallegan, sólríkan og grænan miðbæ með austur vestur ásum. Við viljum miðbæ með blómstrandi mannlífi sem dregur til sín fólk og fyrirtæki
  • Tengja miðbæinn betur við Torfunefsbryggju og Pollinn
  • Vera viðbúin því að byggja þurfi bílastæðahús í miðbæ Akureyrar og huga að því hvar það eða þau eigi að vera
  • Stuðla að umbreytingu Oddeyrinnar í eftirsóttasta hverfi Akureyrar. Eyrin styður við gróskumikinn miðbæ og öfugt
  • Setja strax af stað vinnu við að skipuleggja hvar íbúðarhúsnæði verði byggt eftir að Móahverfi og Holtahverfi hafa verið fullbyggð 
  • Þétta byggð þar sem því verður við komið í sátt og samlyndi við bæjarbúa. Vinna þarf stöðugt að skipulagi þéttingarreita, sem tekur tíma en þarf að klára. Hér er verið að tala t.d. um Melgerðisás og tjaldsvæðisreit
  • Leyfa hækkun á eldri lyftulausum blokkum í því augnamiði að það geti fært íbúum blokkanna ókeypis lyftu 
  • Að skipulagsmál og lóðaúthlutanir verði unnin í gagnsæju ferli 
  • Vinna markvisst að því að gera Akureyri vistvænni 
  • Leggja allar raflínur innan bæjarmarka í jörð, þannig að möguleikar Akureyrar til vaxtar skerðist ekki 
  • Tryggja að lokið verði við stækkun flugstöðvar og stækkun flughlaða á Akureyrarflugvelli. Síðan þarf að halda uppbyggingu á vellinum áfram
  • Styðja við stafrænar lausnir til að auðvelda Akureyringum að hafa áhrif á umhverfið sitt
  • Koma á frístundavagni og endurskoða uppbyggingu strætókerfis á Akureyri 
  • Fara í hugmyndasamkeppni um svæði Akureyrarvallar eða skoða skipulag miðbæjarins alls upp á nýtt með Akureyrarvöll sem viðbót
  • Bærinn kaupi eignir í meira mæli en áður til að auðvelda skipulag og uppbyggingu. Stofnaður verði sjóður innan bæjarins í þeim tilgangi
  • Áhersla verði lögð á góða samvinnu við íbúa um umhverfis- og skipulagsmál
  • Nægt framboð lóða fyrir atvinnustarfsemi verði tryggt
  • Reykjavíkurflugvöllur hefur mikla þýðingu fyrir íbúa Akureyrar. Flugvöllurinn á að vera í Vatnsmýrinni þar til önnur og betri lausn finnst
  • Sérstaklega verði hugað að samgöngumálum og vistvænum ferðakostum við Hrísey og Grímsey í samvinnu við ríkið 
  • Greiða leið skólabarna 
  • Fegra bæinn og hafa fallegt í kringum okkur
  • Vinna þróunaráætlun íbúa og innviða við Eyjafjörð
  • Endurskoða og meta gjaldtöku á bílastæðum í miðbænum
  • Hefja byggingarlistastefnu til vegs og virðingar
  • Nýbyggingar eiga að vera reistar í sátt og samræmi við það umhverfi sem fyrir er

Íþróttir og tómstundir

Íþróttir og tómstundir efla andann, styrkja líkamann og auka samkennd. Í félögum og klúbbum bæjarins er unnið frábært starf í keppni og leik. L-listinn vill tengja íþrótta- og tómstundaiðkun yngri barna við frístund í skólum þannig að sem flest börn geti notið samvista við fjölskyldu eftir kl. 16. Íþróttabærinn Akureyri styrkir bæinn sem áfangastað.

  • Klára uppbyggingu á KA-svæðinu svo að sómi sé af í samræmi við núverandi samkomulag
  • Endurskoða uppbyggingarskýrslu íþróttamannvirkja með það fyrir augum að byggt verði upp á félagssvæði Þórs samhliða uppbyggingu á tveimur nýjum hverfum
  • Hefja undirbúning á þjónustuhúsi í Hlíðarfjalli og vetraraðstöðu á Golfvellinum í samvinnu við einkaaðila
  • Skipuleggja frístund grunnskólanna með tengingu við íþrótta- og tómstundastarf. Skapa samfellda og áhugaverða dagskrá þannig að börn í 1. til 4. bekk grunnskóla ljúki sínum vinnudegi kl. 16
  • Viðhalda öflugri uppbyggingu á tómstundastarfi og hvetja til betri nýtingar á frístundastyrkjum
  • Frístundastyrkur fyrir börn að 18 ára aldri hækki jafnt og þétt yfir kjörtímabilið 
  • Sérstakur fjárstuðningur við börn til íþrótta- og tómstundastarfs ef fjölskylduaðstæður eru erfiðar
  • Tökum upp formlegar viðræður við stjórnvöld um nýjan samning vegna áframhaldandi samstarfs um uppbyggingu aðstöðu til vetraríþrótta og reksturs Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á Akureyri
  • Móta stefnu fyrir tómstunda- og félagsstarf aldraðra
  • Glerárlaug verði opin fyrir almenning 
  • Kaupa gólf í Bogann, eykur notkunarmöguleika og tekjur

Kraftmikið menningarlíf

Akureyri er menningarbær. Öflugt lista- og menningarlíf glæðir allt mannlíf í bænum og laðar að sér ferðamenn. L-listinn vill efla enn frekar menningarstofnanir bæjarins. Blómlegt menningarlíf endurspeglar samfélagið og veitir lífsfyllingu.

  • Tengja enn betur starfsemi menningarstofnana inn í skólastarf
  • Menningarstarf verði áfram aðdráttarafl fyrir Akureyri
  • Efla menningar- og listalíf í atvinnulegu tilliti
  • Menningarsamningar við ríkið verði sambærilegir því sem menningarstofnanir í Reykjavík eru með
  • Að Barnamenningarhátíð verði haldin árlega
  • Menningarstofnanir bæjarins komi með virkari hætti að starfi frístundar í grunnskólunum í því augnamiði að virkja ungmenni til athafna 
  • Styðjum við starf Leikfélags Akureyrar, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Hofs 
  • Styðjum við listnám á háskólastigi
  • Menning og listir verði einn af lykilþáttum í markaðsstarfi Akureyrar
  • Nýta betur möguleika Hofs til ráðstefnuhalds

Réttlátt samfélag

Jafnrétti á að vera sjálfsagt á 21.öldinni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki. Við viljum sveitarfélag þar sem íbúar eru jafnir án tillits til kyns, þjóðernis, trúar, aldurs, fötlunar, fjárhags eða annarrar stöðu. Við viljum samfélag sem leggur áherslu á fjölbreytileika og gefur rými fyrir öll.

  • Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki, t.d. eftir kynþætti, kynferði, kynvitundar, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða nokkurs annars
  • Akureyrarbær fái jafnlaunavottun
  • Bærinn verði áfram fjölskylduvænn vinnustaður
  • Bæta aðgengismál í bænum, rampa hann upp
  • Jafnrétti á að vera ófrávíkjanleg regla í allri stjórnsýslu Akureyrarbæjar
  • Umræða um jafnréttismál á vettvangi bæjarins verði efld
  • Áfram verði unnið markvisst að því að leiðrétta óútskýrðan launamun kynjanna
  • Fylgja eftir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og virða öll ákvæði hans, ekki síst það að einstaklingar eru börn til átján ára aldurs
  • Börn og ungmenni séu höfð með í ákvarðanatöku um málefni þeirra þegar það á við. Sama gildir um aðra hópa
  • Farsældarlögin í forgrunni þegar kemur að þjónustu við börn
  • Samvinna nefnda bæjarins við ungmennaráð, notendaráð fatlaðra og öldungaráð verði aukin
  • Leggja áherslu á fjölbreytileikan
  • Gera samning við samtökin 78 um fræðslu og ráðgjöf inn í skólana
  • Bjóða flóttafólk velkomið
  • Efla íbúasamráð
  • Vinna gegn staðalímyndum

Fagleg stjórnsýsla

Tilgangurinn með stjórnsýslunni er að þjónusta íbúa Akureyrarbæjar og við hjá L-listanum gerum þá kröfu að viðhöfð séu fagleg vinnubrögð, erindum sé svarað fljótt og að ákvarðanir séu teknar út frá almennum forsendum. Fólk á að geta treyst því að jafnræði og sanngirni séu viðhöfð í stjórnsýslunni. 

  • Jafnréttis og jafnræðis verði gætt í hvívetna
  • Innleiða rafræna stjórnsýslu
  • Auka íbúalýðræði
  • Auka hlut þjónustu- og gæðakannana
  • Fagleg vinnubrögð og gagnsæi verði aðalsmerki stjórnsýslu Akureyrar
  • Rafræn stjórnsýslu verði efld og upplýsingatækni sett í forgang
  • Stuðla að umbótarmenningu og stöðugum umbótum
  • Virk hlustun og samvinna við bæjarbúa
  • Faglega ráðinn bæjarstjóri, sem er sameiningartákn allra íbúa sem og stjórnmálaafla
  • Allar ákvarðanir og gjörðir kjörinna fulltrúa og embættismanna skulu einkennast af faglegum vinnubrögðum og gagnsæi
  • Störf hjá bænum verði auglýst á landsvísu og unnið með allar umsóknir á faglegan hátt
  • Gerðar verði reglulegar þjónustu- og gæðakannanir á afgreiðslu erinda sem berast stjórnsýslunni
  • Jafnræðis skal gætt þegar gæðum bæjarins er úthlutað og leikreglur virtar
  • Gerum bæjarbúum kleift að sinna erindum sínum rafrænt
  • Bæjarstjórn Akureyrar verði opin fyrir sameiningu við nágrannasveitarfélög
  • Íbúaapp verði tekið í notkun, þar sem Akureyringum gefst kostur á að nýta þjónustu bæjarins á góðum kjörum

 

Sjálfbær rekstur

Öguð fjármálastjórn er forsenda þess að allt annað geti blómstrað. L-listinn hefur tekið þátt í ábyrgri stjórn bæjarins síðastliðin tólf ár. Við viljum halda áfram á sömu braut. 

  • Gæta aðhalds í rekstri og vinna að því að gera rekstur bæjarins sjálfbæran
  • Áhersla á stafrænar lausnir
  • Vinna markvisst að því að Akureyri verði svæðisborg í samvinnu við ríkið
  • Auka fagmennsku og gagnsæi við áætlanagerð
  • Setja upp kynja- og barnagleraugu við fjárhagsáætlunargerð
  • Langtímaáætlanir bæjarins séu í reglulegri endurskoðun
  • Fjárhagsupplýsingar bæjarins séu aðgengilegar og þær settar fram á einfaldan hátt
  • Gera vandaðar og raunhæfar kostnaðaráætlanir
  • Taka upp viðræður við fjármálaráðuneytið og ríkisstofnanir um bætt upplýsingaflæði milli ríkis og sveitarfélaga, einkum er varðar tekjustofna
  • Gera kröfu um að ríkið greiði leigu fyrir húsnæði fyrir öldrunarheimili í eigu bæjarins
  • Gera kröfu um að ríkið geri upp skuld vegna málaflokka
  • Þegar fjármagni er úthlutað skal markvisst skoðað hvernig það snertir hin mismunandi kyn sem og hvernig það kemur við börn
  • Fjárfesta í grænum verkefnum