Áherslur

Akureyrarbær er frábær staður til að búa á en þó má hvergi slaka á í að gera hann enn betri. Það þarf að halda vel á málunum til að bæta velferðarþjónustuna, sérstaklega fyrir þá sem minna mega sín eða standa höllum fæti.

Til þess að ná árangri þarf Akureyrarbær að vaxa upp í hæfilega stærð til að bjóða þjónustu eins og hún gerist best. Með því að setja Akureyri í fyrsta sæti gerum við sveitarfélagið að eftirsóknarverðasta stað landsins að búa á  ,,Hér er best að búa".

Til að þetta takist þarf að hlúa að öllum þáttum sem hjálpa góðum bæ að verða enn betri. Á Akureyri spilar uppbygging, sjálfbærni og fjölskylduvænt umhverfi saman á einstakan hátt.

Áherslur

- Auka lóðaframboð svo hægt sé að byggja hér að minnsta kosti 350 nýjar íbúðir á ári í nánu samráði við íbúa bæjarins og tryggja fjölbreytt húsnæði fyrir alla. Stuðla að heildrænu skipulagi bæjarhluta, mannvænu og heilsusamlegu þéttbýli. 
- Tryggja og leysa til frambúðar að öll 12 mánaða börn komist inn á leikskóla. Við viljum styðja dagforeldra og koma til móts við foreldra með heimgreiðslum, þar til leikskólapláss býðst.
- Koma á frístundavagni í samstarfi við skóla, íþróttafélög og aðrar tómstundir. 
- Taka örugg „græn skref“ svo Akureyrarbær verði áfram í forystu þegar kemur að flokkun og endurvinnslu á úrgangi. Styðja með markvissum hætti við orkuskipti í samgöngum og auka framleiðslu á umhverfisvænu metani.
- Koma á frístundastyrk fyrir eldri borgara sem stuðlar að heilbrigðara líferni verður nú sett af stað fyrir þennan aldurshóp líka.
- Greina atvinnutækifæri og setja á fót starfsstöðvar fyrir störf án staðsetningar. Efla nýsköpun og frumkvöðlastarf í samstarfi við menntastofnanir, atvinnulíf, bæjarbúa og aðra hagsmunaaðila. 
- Klára fyrirhugaða uppbyggingu á íþróttasvæði KA og gera samning um uppbyggingu á Þórssvæðinu í tengslum við fjölnota íþrótthús og gervigrasvöll.
- Styðja með beinum hætti uppbyggingu á reglulegu millilandaflugi frá Akureyri allt árið um kring. Beint millilandaflug er hluti af lífsgæðum og mikilvægt fyrir samkeppnishæfni svæðisins og skapar auk þess tekjur.
- Draga úr svifryki með öllum tiltækum ráðum.
- Efla menningu og listir, tengja betur inn í skólastarf og stuðla að enn betri nýtingu menningarhúsa bæjarins.
- Byggja þjónustuhús í Hlíðarfjalli til að efla svæðið fyrir íþróttir og ferðamennsku, í samvinnu við ríki og einkaaðila.
- Tryggja aðgengi almennings að Glerárlaug, leita leiða til að bæta útisvæði sundlaugarinnar og markaðsetja hana. Auk þess sem farið verði í staðarvalsgreiningu og kostnaðarmat fyrir nýja 50 metra innilaug á kjörtímabilinu.
- Sporna gegn uppsöfnun á rusli og hvetja fyrirtæki og einstaklinga til að taka þátt í að flokka betur, fegra og hreinsa bæinn. Akureyri verði snyrtilegasti og fallegasti bær landsins.
-Styðja betur við starfsfólk skóla meðal annars með því að auka fjölbreytileika þeirrar þjónustu sem er til staðar innan veggja skólanna og útskrifa skapandi, lífsglaða og sjálfsörugga nemendur.
- Ástunda fagleg vinnubrögð og gagnsæi sem verði aðalsmerki stjórnsýslu Akureyrarbæjar. Tryggja áfram ábyrga fjármálastjórnun og sjálfbærni í rekstri.
- Tryggja að fólki með fötlun og fjölskyldum þeirra standi til boða fjölbreytt búsetu og þjónustu úrræði, sem leiða til aukinna lífsgæða. 
- Markaðssetja Akureyri, Hrísey og Grímsey sem ákjósanlega staði til þess að búa á.
-Að hafna hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki, s.s. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum.

 

L-listanum er treystandi fyrir því að leggja alla áherslu á Akureyri. X-L fyrir Lífsgæði