Óháð stjórnmálaafl

L-listinn er stjórnmálaafl á Akureyri sem hefur eingöngu hagsmuni bæjarins og bæjarbúa að leiðarljósi. Hann hefur engin tengsl við stjórnmálaöfl á landsvísu eða önnur félög eða samtök. Listinn var stofnaður af Oddi Helga Halldórssyni og nokkrum vinum fyrir sveitarstjórnarkosningar árið 1998 og hefur boðið fram allar götur síðan. Hann hlaut sex bæjarfulltrúa og hreinan meirihluta í bæjarstjórn í kosningunum 2010. Í apríl 2014 sameinaðist L-listinn Bæjarlista Akureyrar og hefur boðið fram síðan þá undir nafninu L-listinn, bæjarlisti Akureyrar.

Í stjórnmálum er mikilvægt að setja fram skýra stefnumörkun í helstu málaflokkum. Kjósendur verða að vita hvað frambjóðendur hyggjast fyrir.

Það er ekki síður mikilvægt að ljóst sé hvernig frambjóðendur hugsa. Afstaða og viðhorf skipta miklu máli í stjórnmálum. Við í L-listanum erum bjartsýn og jákvæð. Við sjáum mörg tækifæri til að gera Akureyri að enn betri bæ og auka lífsgæði bæjarbúa.

En mikilvægast af öllu er traust. Stjórnmálamenn starfa í umboði kjósenda og þurfa að rísa undir því trausti sem þeim er sýnt. Við teljum að verk L-listans á kjörtímabilinu sýni að okkur er treystandi. Við leggjum þau, stefnumál framtíðar og okkur sjálf í dóm bæjarbúa og biðjum um traust til að halda áfram á sömu braut.