Minni vinna, meiri tími með börnunum

Hér á Akureyri eigum við samfélag sem er að flestu leyti mjög gott og til fyrirmyndar á landsvísu. Alltaf má þó gera gott betra og mér er sérstaklega hugleikið hvernig við getum skapað betra umhverfi fyrir barnafjölskyldur.

Eftir að fæðingarorlofi lýkur þurfa flestir foreldrar að vinna langan vinnudag til að ná endum saman eða einfaldlega af því að ekki er annað í boði en 100% starf. Væri það ekki áhugavert ef fleiri ættu kost á hlutastarfi eða sveigjanlegum vinnutíma, til að geta fengið nokkrar dýrmætar klukkustundir til viðbótar í hverri viku með börnunum sínum? Ég vil beita mér fyrir því að Akureyrarbær sem vinnustaður gangi á undan með góðu fordæmi og leggi aukna áherslu á að bjóða hlutastörf, sveigjanlegan vinnutíma og fjarvinnu, þar sem því verður við komið. Það myndi strax vera stórt skref því að hjá Akureyrarbæ og fyrirtækjum hans vinna meira en 1.500 manns.

Einhverjir foreldrar gætu kosið að minnka við sig starfshlutfall og þótt það myndi eitt og sér þýða lækkun tekna, þá gæti það unnist til baka til dæmis með lægri kostnaði við leikskóladvöl eða frístund í skólanum. Svo eru líka skýr fordæmi um að tekist hafi að þjappa 8 klst. vinnudegi saman á styttri tíma með til dæmis að stytta kaffitíma og auka skilvirkni á vinnustaðnum. Þá þarf styttri viðvera á vinnustað ekki að þýða neina tekjuskerðingu. Allt þarf þetta að sjálfsögðu að gerast í góðu samstarfi vinnuveitanda, starfsfólks og stéttarfélags.

Einhver kann að spyrja hvort það sé ekki óhagstætt fyrir atvinnurekendur að gefa kost á lægra starfshlutfalli, sveigjanlegum vinnutíma o.s.frv. en kannanir hafa sýnt að afköst starfsmanna haldast ekki hin sömu eftir því sem vinnutíminn lengist. Þannig ætti beinlínis að geta verið hagstæðara að hafa starfsmann í 6 klst. á dag frekar en 8 klst.

Loks vil ég benda á að þótt næga vinnu sé að hafa á Íslandi um þessar mundir, þá er fjórða iðnbyltingin hafin og henni mun fylgja meiri sjálfvirkni og minni þörf fyrir vinnandi hendur. Til framtíðar litið er þess vegna óhjákvæmilegt að heilmiklar breytingar verði á vinnumarkaðnum og ekki eftir neinu að bíða að hefja þá aðlögun.

L-listinn vill gera raunverulegar breytingar á umhverfi barnafjölskyldna á Akureyri. Taktu þátt í því með okkur með að kjósa „L fyrir Lífsgæði“.

Andri Teitsson á sex börn og skipar annað sæti á L-listanum fyrir bæjarstjórnarkosningar á Akureyri í vor.