Fréttir

Miklar framkvæmdir á kjörtímabilinu

Á þessu kjörtímabili sem er að ljúka hefur verið unnið að mörgum stórum verkefnum hjá Umhverfis- og mannvirkjaráði Akureyrarbæjar. Helst ber þar að nefna gagngera endurbyggingu á tveimur af okkar stærstu grunnskólum. Í Glerárskóla hafa B og D álmur (nyrðri álmur) samtals um 1600 fm verið endurnýjaðar frá grunni með nýjum innréttingum, gólfhita, betri hljóðvist, loftgæðum og eldvörnum svo nokkuð sé nefnt. Í Lundarskóla er að ljúka nú í sumar ennþá róttækari endurbyggingu á báðum kennsluálmum og tengibyggingu sem eru á tveimur hæðum og samtals um 4000 fm. Gluggar á neðri hæð sem snúa að inngarði hafa verið síkkaðir og eru þau rými nú orðin björt og vistleg og með öllum nútíma tæknibúnaði fyrir kennslustarf. Eitt lítið dæmi er að nýjustu felliveggir eru svo vel hljóðeinangraðir að það er hægt að spila á rafmagnsgítar öðru megin en alger þögn ríkir hinumegin. Nemendur elstu bekkja Lundarskóla hafa verið í Rósenborg á meðan á þessum framkvæmdum hefur staðið.

Góðir farþegar ...

Það hefur sannarlega hlaupið góður vöxtur í Akureyrarbæ. Á síðasta ári fjölgaði íbúum um rúmlega 400 og mikil eftirspurn er eftir húsnæði á svæðinu. Vinna er hafin við gatnagerð í nýju 700-800 íbúa hverfi og verið er að skipuleggja annað nýtt hverfi, þar sem verða yfir 1.000 nýjar íbúðir. Gera má ráð fyrir að um 3.000 manns geti sest að í þessum tveimur nýju hverfum og búið sér hér heimili.

Liðsheild og árangur

Akureyri er frábær kostur þegar kemur að vali á búsetu. Akureyri er stærsti byggðakjarni utan höfuðborgarsvæðisins og það eru ekki margir staðir sem geta boðið allt það sem Akureyri hefur upp á að bjóða. Hér er ekki aðeins besta veðrið heldur stutt í náttúruna og aðstæður til íþrótta og útivistar almennt góðar. Stuttar vegalengdir, fjölskylduvænt umhverfi, fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf og hátt hlutfall faglærðra starfsmanna í skólum eru dæmi um mikilvæga þætti í okkar samfélagi sem við getum verið stolt af.

Íþróttaiðkun barna og unglinga

Að tilheyra hópi er góð tilfinning, sama á hvaða aldri við erum. Hópar myndast víða, í skólum, við íþróttaiðkun, í tómstundastarfi, á vinnustöðum, í hverfum o.s.frv. Ég held að við getum öll verið sammála um það sem foreldrar að það mikilvægasta fyrir okkur er að börnunum okkar líði vel og að þau hafi góð félagsleg tengsl. Börn eru missterk félagslega og þeim gengur misvel í skóla og því er íþrótta- og tómstundastarf afar mikilvægur þáttur þegar kemur að uppeldi, þroska og félagslegum tengslum.

Líkamleg, andleg og félagsleg heilsa eldra fólks

Í framhaldi af síðustu skrifum mínum þá langar mig að deila vangaveltum mínum varðandi félagsleg tengsl og hreyfingu eldra fólks. Ég hef séð um leikfimi fyrir 60 ára og eldri á Bjargi síðustu fjögur árin en hóparnir mínir eru þrír og samanstanda af einstaklingum á bilinu 60-83 ára. Það leynir sér ekki hversu mikið það gefur fólki á þessum aldri að mæta á staðinn og vera hluti af hópi á sama tíma og þau rækta líkama og sál. Margir eða flestir mæta til að hreyfa sig til bættrar heilsu en hluti af hópnum mætir aðallega út af félagsskapnum sem þau fá fyrir tímann, í tímanum og eftir hann, þegar þau taka kaffisopann sinn já eða í pottinum eftir tímann.

Eflum Glerárlaug!

Glerárlaug er falin perla. Frábær og hlý innilaug þar sem kjöraðstæður eru fyrir barnafólk að kenna þeim yngstu fyrstu tökin. Fjölbreyttir hópar nýta sér aðstöðuna dags daglega sér til heilsubóta auk þess sem sundlaugin þjónar sínum tilgangi vel fyrir skólasund og sundkennslu. Sérstaklega er gott aðgengi fyrir fólk sem sækir laugina í tengslum við endurhæfingu, fyrir eldra borgara og eins er þar stólalyfta fyrir fatlaða.