Fólkið

Halla Björk Reynisdóttir

1. sæti

Halla Björk Reynisdóttir, 50 ára

Þetta er mín saga - hver er þín saga?
Halla starfar sem flugumferðarstjóri hjá Isavia á Akureyrarflugvelli. Halla sat sem bæjarfulltrúi fyrir hönd L-listans á árunum 2010 – 2014 og ásamt því að taka að sér formennsku í  bæjarráði og stjórn Akureyrarstofu, sat hún í stjórn Norðurorku og Fallorku. Hún hefur alla tíð haft brennandi áhuga á samfélagsmálum og vill búa í réttlátu og spennandi samfélagi þar sem allir fá notið sín.

Halla Björk er gift Prebeni Jóni Péturssyni mjólkurtæknifræðingi og bæjarfulltrúa, saman eiga þau þrjár dætur. Hún varð stúdent frá MA árið 1988 og tók atvinnuflugmannsréttindi árið 1991, útskrifaðist sem flugumferðarstjóri 1998 og loks sem viðskiptafræðingur frá HA 2009.

"Ég býð mig fram til að taka þátt í að gera yndislega bæinn okkar framúrskarandi og tel að reynsla mín sem fyrrverandi bæjarfulltrúi komi til með að nýtast í þeirri vinnu. Ég vil setja fjölskylduna í forgang og tel að helstu áskoranir næstu ára verði að höfða til unga fólksins okkar. Ég vil fjölbreyttar lausnir í húsnæðis- og dagvistunarmálum. Ég tel að einn helsti vaxtarbroddur Akureyrar felist í að koma á beinu millilandaflugi á ársgrundvelli, þannig getum við aukið tekjurnar og staðið undir enn betri þjónustu við íbúa”


Andri Teitsson

2. sæti

Andri Teitsson, 51 árs

Þetta er mín saga - hver er þín saga?
Andri er verkfræðingur og starfar sem framkvæmdastjóri Fallorku. Hann hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, meðal annars af fjármálum, iðnaði, sjávarútvegi og orkumálum. Andri er kvæntur Auði Hörn Freysdóttur og eiga þau sex börn. Helstu áhugamál hans eru skíðaganga, utanvegahlaup og stangveiði.

 „Ég vil gera grundvallarbreytingar á vinnumarkaði á Akureyri. Sveitarfélagið sjálft getur þar gengið á undan með góðu fordæmi enda stærsti vinnuveitandinn með um 1.700 starfsmenn. Aukum framboð á hlutastörfum, styttum vinnudaginn niður í 7 klst., bjóðum sveigjanlegan vinnutíma og fjarvinnu þar sem það er mögulegt. Með þessu aukum við afköst og starfsánægju, og gerum fólki auðveldara að samræma vinnu og einkalíf, til að geta átt fleiri gæðastundir með fjölskyldunni.

Svo vil ég að við verðum „Akureyrarborg“ og hefjum stórsókn til fjölgunar íbúa með að bjóða hagstæðan húsnæðismarkað, nægilegt framboð á leikskólaplássi, stuttar vegalengdir, stresslaust umhverfi og almennt séð frábært samfélag fyrir fólk á öllum aldri.“ 


Hildur Betty Kristjánsdóttir

3. sæti

Hildur Betty Kristjánsdóttir, 44 ára

Þetta er mín saga - hver er þín saga?
Betty starfar hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ásamt því að því vera í doktorsnámi við HÍ með áherslu á nám fullorðinna. Hún hefur víðtæka reynslu af menntageiranum. Frá því hún hóf störf á vinnumarkaði hefur hún aðallega unnið að menntamálum sem eiga hug hennar allan. Betty hefur sinnt ráðgjöf, fræðslu og þjálfun einstaklinga á ólíkum aldri innan atvinnulífsins og skólakerfisins. Betty er gift Guðmundi Óla Hilmissyni sjávarútvegsfræðingi og eiga þau þrjú börn og fjögur barnabörn.

,,Ég vil gera betur í menntun og velferð barna okkar. Mikilvægt er að við leggjum enn frekari áherslu á að útskrifa skapandi, lífsglaða og sjálfsörugga nemendur í skólabænum Akureyri. Eins þurfum við að leggja áherslu á að styðja við kennara innan allra skólastiga. Kennarar leggja alúð og metnað í að mennta börnin okkar. Brúum bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla með því að bjóða upp á fjölbreytt úrræði fyrir börn frá 12 mánaða aldri og mótum þannig fjölskylduvænna sveitarfélag“.


Þorgeir Rúnar Finnsson

4. sæti 

Þorgeir Rúnar Finnsson, 33 ára

Þetta er mín saga - hver er þín saga?
Þorgeir starfar í dag sem deildarstjóri við Naustaskóla en hann hefur fjölbreytta reynslu af störfum með börnum og ungmennum sem kennari, skólastjóri og forstöðumaður félagsmiðstöðva. Þorgeir er mikill áhugamaður um hvers kyns íþróttir og tómstundir og gengur enn þá um með atvinnumannadrauminn í maganum, hann á bara eftir að finna réttu íþróttina! Þorgeir er giftur Síssu Eyfjörð Jónsdóttur og eiga þau tvö börn.

„Akureyrarbær er að mínu mati í algjörum sérflokki þegar kemur að fjölbreyttum tækifærum til útivistar, íþróttaiðkunar og tómstundastarfs. Í því felast mikil lífsgæði og mikilvægt að bærinn haldi áfram að styðja vel við barna- og ungmennastarf í bænum ásamt því að tryggja áframhaldandi uppbyggingu íþróttamannvirkja og auka útivistarmöguleika. Við þurfum að stefna að enn betri nýtingu frístundastyrksins og leitast við að öll börn hafi kost á faglegu íþrótta- og tómstundastarfi við hæfi þar sem þau njóta sín og styrkjast sem einstaklingar.“


Geir Kr. Aðalsteinsson

5. sæti 

Geir Kr. Aðalsteinsson, 43 ára

Þetta er mín saga - hver er þín saga?
Geir Kristinn er mannauðsstjóri Hölds-Bílaleigu Akureyrar.  Hann hefur góða reynslu úr bæjarmálunum eftir að hafa verið oddviti L-listans kjörtímabilið 2010-14 og gegndi hann embætti forseta bæjarstjórnar þann tíma, auk þess að sitja í bæjarráði, gegna formennsku í Eyþingi o.fl.  Geir hefur einnig setið sem stjórnarformaður Norðurorku fyrir L-listann síðastliðin 8 ár.  Geir er mikill íþróttaáhugamaður og hefur hann verið formaður Íþróttabandalags Akureyrar frá árinu 2014.  Geir er giftur Lindu Guðmundsdóttur og eiga þau þrjá syni.

„Atvinnulíf bæjarins er undirstaða velferðar í samfélaginu okkar og það er hlutverk sveitarfélaga að bjóða upp á frjóan jarðveg í þeim efnum og L-listinn mun áfram leggja mikla áherslu á gott samstarf við atvinnulífið í bænum.  Þá er Akureyri einn fremsti íþróttabær landsins og þó víðar væri leitað, við þurfum að tryggja að svo verði áfram um langa framtíð.“ 

 


Anna Fanney Stefánsdóttir

6. sæti

Anna Fanney Stefánsdóttir, 28 ára

Þetta er mín saga - hver er þín saga?
Anna Fanney starfar á Sjúkrahúsinu á Akureyri sem sjúkraliði á skurðlækningadeild. Hún útskrifaðist um jólin 2015 sem sjúkraliði og stúdent frá Verkmenntaskólanum á Akureyri og einnig sem heilsunuddari frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Anna Fanney hefur alltaf búið á Akureyri fyrir utan eitt ár sem hún eyddi á Seyðisfirði meðan hún var að klára nám. Lengst af vann hún í skammtímavistun við Þórunnarstræti 99 og við að þjálfa sund, bæði ung börn og einstaklinga með fötlun.

,,Það er margt sem snýr að einstaklingum með skilgreinda fötlun eða andleg veikindi sem mætti laga og bæta hér í bænum. Til þess að þessir einstaklingar njóti sín sem best þarf að koma til móts við hvern og einn eins og best verður á kosið. Það vantar búsetuúrræði fyrir einstaklinga sem eru færir um að búa einir en þurfa örlitla aðstoð, vinnu fyrir þá sem eru kannski ekki færir um að takast á við mikilvægar ábyrgðarstöður en eru hörkudugleg og vilja vinna og nám sem þetta fólk getur sótt að loknum framhaldsskóla.” 


Þorsteinn Hlynur Jónsson7. sæti

Þorsteinn Hlynur Jónsson, 50 ára

Hlynur starfar hjá eigin fyrirtæki, Bergfesta ehf. Eignarhaldsfélag, sem meðal annars fjárfestir í nýbyggingaframkvæmdum á Akureyri. Hann hefur frá tvítugu starfað eingöngu við eigin atvinnurekstur meðal annars í veitingahúsarekstri, hótelrekstri, ferðaþjónustu, fasteignaleigufélagi, í ýmsum byggingaverkefnum og verið fjárfestir. Hlynur hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagasamtök og setið í stjórnum/nefndum í verkefnum tengdum ferðaþjónustu á Akureyri og fyrir SAF og SA. Hlynur er giftur Guðríði H. Jónasdóttur heilsunuddara og IAK einkaþjálfara og eiga þau fjögur börn.

„ Ég vil gera Akureyri að bestu mögulegu útgáfunni af sjálfri sér með því að nýta alla þá möguleika sem hér finnast í að fjölga íbúum og atvinnutækifærum. Við þurfum að fjárfesta til að ungar fjölskyldur vilji flytja til Akureyrar og til að tryggja bænum framtíðar útsvarstekjur og áframhaldandi hagsæld fyrir alla bæjarbúa. Bjóðum uppá fleiri valkosti í húsnæðismálum en bara leigumarkaðinn þannig að unga fólkið okkar og þeir sem vilja flytja til Akureyrar geti haft val um að fjárfesta í eigin húsnæði. Gerum það að meginverkefni okkar að auka framleiðni í bæjarfélaginu öllum til hagsbóta“.


Anna Hildur Guðmundsdóttir8. sæti

Anna Hildur Guðmundsdóttir, 48 ára

Þetta er mín saga - hver er þín saga?
Anna Hildur starfar sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá Akureyrarbæ.  Hún hefur unnið við það síðustu 12 ár, fyrst hjá SÁÁ í 11 ár og hóf störf hjá Akureyrarbæ á þessu ári. Anna Hildur hefur verið varabæjarfulltrúi síðustu 8 ár og setið í ýmsum nefndum fyrir hönd L-listans. Hún er gift Jóhanni Helgasyni og á 2 dætur, 4 stjúpbörn og 4 barnabörn.  Hún hefur tekið virkan þátt í félagsstarfi í tengslum við íþróttaiðkun dætra sinna. Hún hefur mikinn áhuga á forvörnum sem og samfélagsmálum.   

„Ég hef mikinn áhuga á forvörnum og að sjá hvernig hægt er að gera lífið einfaldara og á sama tíma innihaldsríkara.  Ég vil halda áfram að efla velferðarþjónustuna og einfalda leiðirnar fyrir fólk að nýta sér þjónustuna. Við þurfum að vinna meira þvert á svið og bjóða upp á fleiri búsetuúrræði fyrir fólk sem þarf á því að halda.  Við þurfum að efla tómstundastarf, bæði skapandi starf og íþróttir á grunnskólastiginu og gera aðgengi að því fyrir alla óháð stöðu og stétt.“


Víðir Benediktsson9. sæti

Víðir Benediktsson, 58 ára 

Þetta er mín saga - hver er þín saga?
Víðir er skipstjóri, fæddur og uppalinn á Akureyri. Víðir hefur aðallega starfað við sjómennsku, lengst af sem skipstjóri og stýrimaður hjá Útgerðarfélagi Akureyringa.  Víðir er einnig fagmenntaður blikksmiður og starfaði við það um árabil en starfar nú sem skipsstjóri hjá Hafnasamlagi Norðurlands (Akureyrarhöfn). Víðir er einn af stofnendum L-listans 1998 og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á vegum listans hjá Akureyrarbæ. Áhugamál hans er t.d. útivist, s.s. hjólreiðar, gönguferðir og sjóstangveiði.

Eiginkona Víðis er Jenný Ragnarsdóttir og eiga þau fimm uppkomin börn.


Brynhildur Pétursdóttir10. sæti

Brynhildur Pétursdóttir, 48 ára

Þetta er mín saga - hver er þín saga?
Brynhildur hefur starfað hjá Neytendasamtökunum frá árinu 2002 og til ársins 2008 starfaði hún einnig sem safnstjóri Nonnahúss. Hún settist á þing árið 2013 fyrir Bjarta framtíð og sat m.a. í fjárlaganefnd. Í dag er hún framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna.

Hún er gift Guðmundi Hauki Sigurðssyni og eiga þau tvö börn.

„Mér finnst einn hópur á Íslandi eiga sér of fáa málsvara en það eru ungar fjölskyldur með börn. Þetta er hópur sem hefur hvorki tíma né orku til að berjast fyrir sínum hagsmunum og verður að treysta því að þeir sem fara með völdin standi sig í stykkinu. Akureyri er að mörgu leyti mjög fjölskylduvænn bær en við getum gert enn betur“.


Jón Þorvaldur Heiðarsson11. sæti

Jón Þorvaldur Heiðarsson, 50 ára

 Jón Þorvaldur er fæddur og uppalinn í Húnavatnssýslu. Hann er hagfræðingur að mennt og er einnig með BS próf í eðlisfræði.  Hann er lektor við Háskólann á Akureyri og er giftur Jóhönnu Hjartardóttur félagsráðgjafa og eiga þau fjögur börn.

Jón er mikill áhugamaður um byggðaþróun og áhugamaður um uppbyggingu Akureyrar og Akureyrarsvæðisins. Hann vill vinna að því að ríkisvaldið styðji það að fleiri borgir rísi á Íslandi. Jón telur að svarið við háu húsnæðisverði og vandræðum ungs fólks að komast í eigið húsnæði í höfuðborginni sé að byggja upp annars staðar svo sem á Akureyrarsvæðinu. Það sé því mikilvægt að Akureyrarbær hafi ávallt nægt framboð af lóðum svo uppbyggingin strandi ekki á því.  Jón telur mikilvægt að þétta byggðina á Akureyri með áherslu á minni íbúðir nálægt miðbænum en stærri íbúðir í úthverfum. Við þéttingu þurfi þó sérstaklega að huga að útliti húsa þannig að þétting skili Akureyringum enn fallegri bæ. Mikilvægast sé þetta í miðbænum. Jón Þorvaldur ætlar nefnilega að eiga heima í miðbæ Akureyrar á elliárunum.  

Jón telur að brýnustu baráttumál Akureyrar um þessar mundir séu orkuflutningar og beint millilandaflug.  Hann telur að millilandaflug geti ýtt af stað skriðu uppbyggingar á svæðinu. Vetrarnýting hótela verði þá betri sem leiði til meiri áhuga á uppbyggingu nýrra hótela og frekari þjónustu við ferðamenn.  Akureyri og Norðurland eigi mikið inni í ferðaþjónustunni.


Guðrún Karítas Garðarsdóttir

12. sæti

Guðrún Karítas Garðarsdóttir, 47 ára

Þetta er mín saga - hver er þín saga?
Guðrún starfar við eigin rekstur.  Annars vegar í byggingaverktakafyrirtæki sem hún rekur ásamt eiginmanni sínum og öðrum hjónum og hins vegar við rekstur á litlu gistiheimili.   Hún lauk prófi í rekstrarfræði frá Háskólanum á Akureyri 1996 og BSc í viðskiptafræði frá Bifröst 2003.  Guðrún hefur víðtæka reynslu af öllu sem viðkemur bókhaldi og endurskoðun, vann um árabil hjá PricewaterhouseCoopers og var verslunarstjóri í Eymundsson Akureyri í fimm ár.

Guðrún er gift Böðvari Kristjánssyni og eiga þau samtals 4 börn og 1 barnabarn.

Forvarnir og málefni fatlaðra eiga hug Guðrúnar.  "Forvarnir eru grunnundirstaða að svo mörgu sama hvort um er að ræða forvarnir sem snúa að áfengi, vímuefnum eða forvarnir sem stuðla að góðum grunni barna til eðlilegs lífs.  Styðja þarf við unga foreldra sem eiga brotið bakland, styðja þarf við unga fólkið sem kemur úr meðferð og/eða afplánun.  Við þurfum að búa við gott net sem aðstoðar þá sem ekki geta gert það sjálf. Hvað fatlaða varðar þá þarf gott bæjarfélag að tryggja þeim öruggt líf. Við verðum að geta treyst því að fatlaðir séu öruggir í okkar samfélagi, að þau geti búið sér heimili þegar á fullorðinsár er komið, að stuðningurinn við þau sé góður og að þau fái tækifæri til að stunda vinnu við hæfi eins og hver annar þegn í þessu bæjarfélagi."


Róbert Freyr Jónsson13. sæti

Róbert Freyr Jónsson, 45 ára

Þetta er mín saga - hver er þín saga?
Róbert er fæddur og uppalinn á Dalvík en flutti til Akureyrar á unglingsárunum þegar hann hóf nám í Verkmenntaskólanum. Eftir skóla tók við nýr áfangi þar sem Róbert tók þátt í rekstri Pizza 67. Eftir Það ævintýri fór Róbert í sölu og ráðgjöf með áherslu á tölvur og tölvuviðgerðir. Sú vegferð leiddi til stofnunar Stefnu ehf. með Matthíasi Rögnvaldssyni. Þar hefur Róbert sinnt ýmsum verkefnum; verslunarstjórnun, tölvukennslu, viðgerðum og almennri þjónustu og ráðgjöf. Í dag er aðalhlutverkið sölustjóri og ráðgjafi hjá Stefnu varðandi vefsíður og veflausnir. Róbert er giftur Önnu Hlín Erlingsdóttur og saman eiga þau tvær dætur.

„Ég tók að mér hlutverk varaformanns velferðarráðs á fyrri hluta síðasta kjörtímabils. Stærð og fjöldi mála sem tekist er á við þar kom mér verulega á óvart. Þetta hefur verið virkilega áhugavert og lærdómsríkt. Það er mjög margt sem Akureyrarbær er til fyrirmyndar í og þá sérstaklega þegar kemur að málefnum fólks með fötlun, en það er líka margt sem má gera enn betur. Til dæmis hef ég áhuga á að hér verði starfrækt bæði áfangaheimili og fjölskylduhús í náinni framtíð sem og unnið enn betur í forvarnarstarfi og finna öllum sem minna mega sín ákveðinn farveg. Eftir því sem ég komst meira og meira inn í málefni velferðarráðs, því meiri áhuga fékk ég á málaflokknum og ekki síður þegar ég sá að maður gat haft áhrif og látið góða hluti gerast. Þessi málaflokkur er mér í dag mjög hugleikinn og mörg mál sem ég vil fylgja eftir og sjá blómstra í bænum okkar.“


Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir14. sæti

Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir, 44 ára

Þetta er mín saga - hver er þín saga?
Ragnheiður Lilja er þriggja barna móðir á Akureyri, menntunarfræðingur með langa reynslu af kennslu, stjórnun og ráðgjöf í menntageiranum. Hún er mikil áhugamanneskja um samfélagsmál og hefur auk þess komið víða við bæði í verkefnastjórnun og þjónustustörfum. Menntamál og líðan barna og ungmenna hefur átt hug hennar allan um langa hríð sem og vinnuaðstæður þeirra sem vinna að málefnum barna og ungmenna. 

 „Ég vil leggja mitt af mörkum til að skapa aðstæður í skólasamfélaginu þar sem rödd allra hlutaðeigandi fær meira vægi og áhersla verði ávallt lögð á að draga fram það besta í fari hvers einstaklings, bæði meðal nemenda, starfsfólks og foreldra. Þannig má auka líkur á að einstaklingar njóti sín enn frekar út frá sínum styrkleikum og hæfileikum, bæði innan skóla sem utan. Með öflugu kerfi sem fær tannhjól skóla-, velferðar-, félags-, íþrótta-, tómstunda- og menningarmála til að snúast í takt með hagsmuni barna og ungmenna að leiðarljósi, tel ég að auka megi tækifæri allra til að blómstra á sínum forsendum. Ég vil sjá Akureyri skara framúr með tilliti til þjónustu við börn og ungmenni. Stór liður í að ná því markmiði er að skapa öllum sem vinna að hagsmunum barna og ungmenna góðar og hvetjandi vinnuaðstæður.”


Maron Pétursson15. sæti

Maron Pétursson, 50 ára

 Maron starfar sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður hjá Slökkviliði Akureyrar. Hann hefur starfað í því fagi síðan árið 1999. Hann hefur jafnframt verið mjög virkur í sjálfboðaliðastarfi í íþróttahreyfingunni, bæði sem þjálfari og starfað í stjórnum íþróttafélaga. Hans sérsvið eru því öryggismál ásamt félagsmálum. Maron er giftur Mörthu Lilju Olsen og eiga þau þrjú börn og eitt barnabarn.


Birna Baldursdóttir16. sæti

Birna Baldursdóttir, 37 ára

Ég heiti Birna Baldursdóttir og er Akureyringur.  Ég er íþróttafræðingur að mennt ásamt því að vera ÍAK einkaþjálfari á Bjargi. Ég er fyrrverandi landsliðskona í blaki, strandblaki og íshokký og hef mikinn áhuga á hverskonar hreyfingu og útiveru eins og synir mínir tveir Mikael Breki og Sigmundur Logi.  Við lifum hreinlega fyrir sportið og elskum íþróttaaðstöðuna sem er að finna á Akureyri.  En lengi má gott bæta og því frábært að reyna að vinna að því til dæmis að ná sem flestum bæjarbúum í einhverskonar hreyfingu því ég tel að hún sem forvörn geti verið ein hagkvæmasta og áhrifaríkasta leiðin að bættri lýðheilsu.


Helgi Snæbjarnarson17. sæti

Helgi Snæbjarnarson, 52 ára

Helgi Snæbjarnarson er fæddur á Akureyri 13. okt. 1965 og hefur búið þar lengst af með stuttum hléum. Helgi er giftur og á tvær uppkomnar dætur og  þrjú barnabörn sem öll eru búsett í Danmörku. Helgi er menntaður pípulagningamaður og hef unnið við þá iðn í  tæp 30 ár. Hann hefur tekið þátt í starfi L-listans frá stofnun, setið í fjölmörgum nefndum og ráðum sveitarfélagsins og einnig tekið sæti varamanns í bæjarstjórn.

Helgi hefur lengst af setið í skipulagsráði og gegndi þar formennsku á árunum 2010 til 2014. Áhugi hans á bæjarmálum hefur lengi verið til staðar og þá ekki síst á skipulagsmálum. Skipulagsmál eru mikilvægur málaflokkur sem snertir marga fleti í hinu daglega lífi okkar þar sem fjallað er meðal annars um mótun umhverfis og fyrirkomulag byggðar, þarfir og skoðanir okkar eru oft ólíkar. Þess vegna er mikilvægt að vanda vel til verka þegar unnið er að skipulagsmálum.


Ólöf Inga Andrésdóttir18. sæti

Ólöf Inga Andrésdóttir, 53 ára

Þetta er mín saga - hver er þín saga?
Ólöf Inga er skólastjóri Síðuskóla á Akureyri. Hún er menntaður grunnskólakennari og hefur lokið framhaldsnámi í stjórnun menntastofnana. Hún hefur starfað í grunnskóla í 30 ár, ýmist sem kennari eða stjórnandi og hefur því víðtæka reynslu af menntamálum. Ólöf Inga er gift Birki Björnssyni og eiga þau fjögur börn og eitt barnabarn. 

,,Á Akureyri er gott að búa og mikilvægt að gera það enn betra. Við skulum halda áfram að vinna vel í umhverfismálum og vinna skýra stefnu í þeim málaflokki. Það er nauðsynlegt að leggja áherslu á þarfir íbúanna og byrja á þeim yngstu. Við verðum að tryggja það að foreldrar fái leikskólapláss þegar fæðingarorlofi lýkur og stuðla að fjölbreyttum menntunartækifærum. Í sveitarfélaginu höfum við skóla á öllum skólastigum sem gefur okkur sóknarfæri til að gera Akureyri eftirsóknarverðan kost til búsetu.”


Sæbjörg Sylvía Kristinsdóttir19. sæti

Sæbjörg Sylvía Kristinsdóttir, 52 ára

Sæbjörg eða Begga eins og hún er kölluð, vinnur á skrifstofu hjá Rafeyri ehf. Hún er með BSc gráðu í rekstrarfræði frá Háskólanum á Akureyri, diplóma próf í viðburðastjórnun frá Háskólanum á Hólum auk þess að vera tækniteiknari frá Iðnskólanum á Akureyri. Begga er með mjög víðtæka reynslu af skrifstofu- og stjórnunarstörfum, auk eigins reksturs. Hefur verið í félagsmálum og sinnt áhugamálum sínum af miklum krafti. Er í sóknarnefnd Akureyrarkirkju, leikmaður í Héraðsnefnd Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis og í stjórn Mótorhjólasafns Íslands. Begga er einstök og á tvö uppkomin börn. Begga situr í Umhverfis- og mannvirkjaráði fyrir L-listann.

„Götur bæjarins“ eru mikið hugðarefni hjá mér því ég ek mikið á mótorhjólunum mínum um þær. Auk þess eru framkvæmdir, umhverfismál í bænum okkar mjög mikilvægar. Hlúa þarf að slökkviliði og sjúkraflutningum. Halda áfram góðri vinnu í göngu- og reiðhjólastígum og kortleggja þær með appi. Skipulag og stjórnun bæjarins koma sterk inn líka og því opið og grænt bókhald. Ég vil sameina sveitarfélög í Eyjafirðinum til að gera svæðið sterkari heild án þess að hinn stóri gleypi þann minni.“


Matthías Rögnvaldsson20. sæti

Matthías Rögnvaldsson, 46 ára

Þetta er mín saga - hver er þín saga?
Matthías er kvæntur Erlu Jóhannesdóttur, hjúkrunarfræðingi og saman eiga þau fimm börn. Matthías er framkvæmdastjóri og stofnandi Stefnu hugbúnaðarhúss ehf. Hann hefur einnig gengt ýmsum nefndarstörfum fyrir Akureyrarbæ ásamt því að vera einn af skipuleggjendum Atvinnu- og nýsköpunarhelgarinnar.

Sem stofnandi fyrirtækis og atvinnurekandi sé ég framtíð Akureyrar liggja í aukinni nýsköpun þannig að fólk og fyrirtæki með hugmyndir fái vettvang og tækifæri til að þróa verkefni sín áfram, því fjölbreytni í atvinnulífinu er lykillinn að betri Akureyri.


Silja Dögg Baldursdóttir21. sæti

Silja Dögg Baldursdóttir, 35 ára

Silja Dögg skipaði 2. sætið á lista L-listans árið 2014 og er í dag sitjandi bæjarfulltrúi. Hún hefur staraið með L-listanum síðan 2002 og býður sig nú fram í fjórða sinn fyrir hönd listans. Hún hefur starfað sem varabæjarfulltrúi og setið í ýmsum nefndum og stjórnum fyrir hönd Akureyrar, bæði sem almennur nefndarmaður og sem formaður.

Silja er fjölmiðlafræðingur að mennt og með diplómu í verkefnastjórnun. Hún er gift Baldvin Erni Harðarsyni og þau eiga saman tvö börn, Tristan Baldur og Karítas Önju.

,,Ég valdi að starfa með L-listanum þegar ég var 18 ára gömul, og bauð mig fram 20 ára. Var þá yngst frambjóðanda árið 2002. Ástæðan fyrir því að ég valdi L-listann er sú að ég trúi því að innan L-listans sé góð blanda af ólíku fólki úr ólíkum áttum með brennandi áhuga á samfélaginu og löngun til að vinna fyrir bæinn sinn. Við fáum alltaf besta samfélagið þegar sem fjölbreyttasti hópurinn vinnur saman." 


Oddur Helgi Halldórsson22. sæti

Oddur Helgi Halldórsson, 59 ára

Þetta er mín saga - Hver er þín saga?
Oddur Helgi er blikksmíðameistari og iðnrekstrarfræðingur. Hann á og rekur Blikkrás ehf. Oddur Helgi er einn af stofnendum L-listans og sat í bæjarstjórn í 20 ár, frá 1994-2014. Oddur Helgi sat í bæjarráði í 16 ár, ásamt fjölda annarra stjórna, nefnda og ráða á vegum bæjarins, á löngum ferli sínum.

Oddur Helgi er kvæntur Margréti Hörpu Þorsteinsdóttur og eiga þau 3 börn, tvö tengdabörn og 4 barnabörn.  

„Hugsjónin sem við lögðum af stað með í upphafi er enn í fullu gildi: Að gera góðan bæ betri og til þess þyrfti rödd hins almenna borgara að heyrast í bæjarstjórn“.